Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018

Úrskurður velferðarráðuneytisins

Föstudaginn 16. ágúst 2013 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 22. nóvember 2012, sem barst ráðuneytinu 27. nóvember sama ár, kærði […], fyrir hönd Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland, kt. 700409-2440, ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. september 2012, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa honum sjálfum, en hann er tyrkneskur ríkisborgari, fd. […], í því skyni að ráða sig til starfa hjá Menningarfélaginu Tyrkland-Ísland.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er tyrkneskur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til starfa hjá Menningarfélaginu Tyrkland-Ísland. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hana til ráðuneytisins. Í erindi kæranda tekur kærandi meðal annars fram að skýringin á því hvers vegna umrædd stjórnsýslukæra komi svo seint fram sé að hann hafi ekki fengið svar við umsókn sinni um dvalarleyfi fyrr en hann hafi farið að grennslast fyrir um málið. Í fyrrnefndu erindi tekur kærandi jafnframt fram að hann sé starfandi formaður Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland.

Ráðuneytið sendi kæranda bréf, dags. 15. mars 2013, þar sem athygli kæranda var vakin á því að kærufrestur í málinu hefði runnið út 11. október 2012 en samkvæmt 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga væri kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning bærist um ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins var enn fremur tekið fram að þrátt fyrir ákvæði 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga færi um kæru að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt 28. gr. þeirra laga skuli vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt sé talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í bréfi ráðuneytisins var jafnframt tekið fram að í umræddu erindi til ráðuneytisins hefði meðal annars komið fram að skýringin á því hvers vegna umrædd stjórnsýslukæra hefði komið svo seint fram væri að kærandi hefði ekki fengið svar við umsókn sinni um dvalarleyfi fyrr en hann hefði farið að grennslast fyrir um málið. Þá hafi komið fram í erindinu að kærandi væri starfandi formaður Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland.

Þá var tekið fram í bréfi ráðuneytisins að samkvæmt fyrrnefndri 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga væri atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundins atvinnuleyfis. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálstofnun hafi umræddur útlendingur sótt sjálfur um umrætt atvinnuleyfi fyrir hönd Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland. Jafnframt hefði ráðuneytið fengið þær upplýsingar frá Vinnumálastofnun að stofnunin hafi upplýst Menningarfélagið Tyrkland-Ísland um ákvörðun stofnunarinnar, dags. 13. september 2012, um synjun á umræddu atvinnuleyfi þegar í kjölfar þess að ákvörðunin hafi verið tekin.

Í ljósi framangreinds óskaði ráðuneytið í bréfi sínu eftir frekari upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra hefði borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti þrátt fyrir að telja yrði að forsvarsmanni Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland, sem af gögnum málsins mætti ætla að væri umræddur útlendingur, hefði verið kunnugt um ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umræddu atvinnuleyfi frá miðjum september 2012. Frestur til að veita ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar var veittur til 4. apríl 2013.

Í svarbréfi lögmanns kæranda til ráðuneytisins, dags. 2. apríl 2013, kemur meðal annars fram að kærandi hafi verið kvæntur ríkisborgara frá Danmörku frá árinu 2004. Jafnframt kemur fram að ástæða þess að kærandi hafi ekki kært þá ákvörðun Vinnumálastofnunar sem hér um ræðir innan lögbundins kærufrests hafi verið sú að á þeim tíma sem um ræði hafi hann verið staddur hjá eiginkonu sinni í Danmörku í því skyni að vera viðstaddur fæðingu sonar þeirra. Fram kemur að það að vera viðstaddur fæðingu barns síns hljóti að mati kæranda að teljast afsökun fyrir því að kæra berist ráðuneytinu nokkrum vikum eftir að kærufresti lýkur.

Með tölvubréfi lögmanns kæranda til ráðuneytisins, dags. 8. apríl 2013, barst ráðuneytinu afrit af fæðingarvottorði barns umrædds útlendings þar sem meðal annars kemur fram að barnið hafi fæðst í Danmörku 16. október 2012.

Í ljósi framangreinds óskaði ráðuneytið með bréfi, dags. 24. maí 2013, eftir gögnum sem sýndu hvenær kærandi hefði farið frá Íslandi til Danmerkur í því skyni að vera viðstaddur fyrrnefnda fæðingu. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir gögnum sem sýndu hvenær hann hefði komið aftur hingað til lands eftir dvöl sína í Danmörku í tilefni fæðingarinnar. Frestur til að koma umbeðnum gögnum til ráðuneytisins var veittur til 7. júní 2013.

Í svarbréfi lögmanns kæranda, dags. 7. júní 2013, kemur meðal annars fram að kærandi hafi farið til Danmerkur þann 7. september 2012 og snúið til baka til Íslands þann 5. nóvember sama ár.

Þar sem engin gögn sem staðfestu framangreint fylgdu með fyrrnefndu svarbréfi lögmanns kæranda til ráðuneytisins hafði starfsmaður ráðuneytisins þann 11. júní 2013 samband símleiðis við hlutaðeigandi lögmann og óskaði eftir afriti af rafrænum flugfarseðlum eða sambærilegum gögnum sem myndu staðfesta það sem komið hefði fram í svarbréfinu til ráðuneytisins varðandi þann tíma sem þar væri haldið fram að kærandi hefði dvalið í Danmörku vegna fæðingar sonar síns.

Þann 12. júní 2013 barst ráðuneytinu afrit af flugfarseðlum sem sýndu að kærandi hefði farið til Danmerkur þann 7. september 2012. Þá sýndu fyrrnefndir flugfarseðlar að kærandi hefði komið aftur hingað til lands þann 5. nóvember 2012 en snúið aftur til Danmerkur þann 12. nóvember sama ár.

Í ljósi framangreinds óskaði ráðuneytið með bréfi, dags. 18. júní 2013, eftir upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra hafi ekki borist til ráðuneytisins fyrr en 27. nóvember 2012 þrátt fyrir að kærandi hafi komið aftur hingað til lands þann 5. nóvember sama ár eftir að hafa dvalið í Danmörku vegna fæðingar sonar síns. Frestur til að veita ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar var veittur til 26. júní 2013.

Bréfi ráðuneytisins var svarað af lögmanni kæranda með tölvubréfi, dags. 21. júní 2013, þar sem meðal annars kemur fram að kæranda hafi ekki borist bréf með neikvæðri niðurstöðu Vinnumálastofnunar. Hann hafi því ekki frétt af hinni neikvæðu niðurstöðu fyrr en talsvert eftir að hann hafi komið til landsins 5. nóvember 2012. Enn fremur kemur fram í svarbréfi lögmanns kæranda að kærandi hafi kært hina neikvæðu niðurstöðu Vinnumálastofnar um leið og hann hafi fengið upplýsingar um að niðurstaðan lægi fyrir eftir að hafa óskað eftir upplýsingum frá stofnuninni um hvar mál hans væri statt.

Þá fékk ráðuneytið þær upplýsingar frá Vinnumálastofnun að stofnunin hafi sent kæranda bréf, dags. 22. ágúst 2012, þar sem óskað hafi verið eftir frekari upplýsingum vegna afgreiðslu stofnunarinnar á umræddri umsókn um atvinnuleyfi og hafi svar kæranda verið komið til stofnunarinnar 11. september sama ár.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, er heimilt að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundinna atvinnuleyfa til velferðarráðuneytis og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning berst um ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í máli því sem hér um ræðir rann því lögbundinn kærufrestur út þann 11. október 2012 og barst ráðuneytinu því ekki umrædd stjórnsýslukæra fyrr en sex vikum eftir að lögbundnum kærufresti lauk.

Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga fer um stjórnsýslukæru að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 22. nóvember 2012, tekur kærandi meðal annars fram að skýringin á því hvers vegna umrædd stjórnsýslukæra hafi komið svo seint fram sé að hann hafi ekki fengið svar við umsókn sinni um dvalarleyfi fyrr en hann hafi farið að grennslast fyrir um málið. Í fyrrnefndu erindi tekur kærandi jafnframt fram að hann sé starfandi formaður Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland.

Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð af gögnum málsins en að upplýsingar um ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi borist Menningarfélaginu Tyrkland-Ísland með hefðbundnum hætti þegar í kjölfar þess að ákvörðun stofnunarinnar lá fyrir eða með bréfi stofnunarinnar, dags. 13. september 2012, en í bréfinu kemur meðal annars fram að kæranda sé heimilt að kæra afgreiðslu stofnunarinnar til velferðarráðuneytis innan fjögurra vikna frá móttöku bréfsins.

Að mati ráðuneytisins verður því að ætla að kærandi sem starfandi formaður Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland, líkt og fram kemur í erindi kæranda til ráðuneytisins, hefði um miðjan september 2012 átt að vera nægjanlega upplýstur um þann frest sem hann hafði lögum samkvæmt til að kæra til velferðarráðuneytisins umrædda ákvörðun Vinnumálstofnunar um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis hér á landi honum sjálfum til handa.

Í bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 15. mars 2013, kemur fram framangreint mat ráðuneytisins þess efnis að ætla megi af gögnum málsins að kæranda hafi sem forsvarsmanni Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland mátt vera kunnugt um ákvörðun Vinnumálstofnunar um synjun á umræddu atvinnuleyfi frá miðjum september 2012 þar sem Vinnumálastofnun hafi upplýst félagið um ákvörðun stofnunarinnar, dags. 13. september 2012, um synjun á umræddu atvinnuleyfi þegar í kjölfar þess að ákvörðunin hafi verið tekin.

Í svarbréfi lögmanns kæranda til ráðuneytisins, dags. 2. apríl 2013, er þessu mati ráðuneytisins ekki mótmælt heldur upplýst að ástæða þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu ekki fyrr en að loknum kærufresti hafi verið sú að kærandi hafi á þeim tíma sem um ræði verið staddur í Danmörku í því skyni að vera viðstaddur fæðingu sonar síns.

Ætla má af gögnum málsins að kærandi hafi farið til Danmerkur þann 7. september 2012 og að fyrrnefndur sonur hans hafi fæðst þar í landi þann 16. október 2012. Þá má ætla af gögnum málsins að kærandi hafi komið aftur hingað til lands þann 5. nóvember 2012 en snúið aftur til Danmerkur þann 12. nóvember sama ár.

Að mati ráðuneytisins má almennt ætla að fæðing barns hlutaðeigandi kæranda hverju sinni geti haft slík áhrif á getu viðkomandi til að kæra til æðra setts stjórnvalds stjórnvaldsákvarðanir lægra setts stjórnvalds innan lögbundins kærufrests í hlutaðeigandi máli að afsakanlegt verði talið í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda beri fæðinguna að á þeim tíma sem kærufrestur stendur yfir.

Í máli því sem hér um ræðir lauk lögbundnum kærufresti þann 11. október 2012 eða fimm dögum áður en sonur kæranda fæddist 16. október 2012 samkvæmt gögnum málsins. Að mati ráðuneytisins er því ekki unnt að líta svo á að fæðingin hafi haft þau áhrif á getu kæranda til að kæra til ráðuneytisins umrædda ákvörðun Vinnumálstofnunar innan lögbundins kærufrests að afsakanlegt verði talið í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati ráðuneytisins á það við hvort sem kærandi var staddur hérlendis eða í Danmörku á því tímabili sem telst til lögbundins kærufrests í máli þessu enda dvöl hér á landi ekki forsenda þess að unnt sé að kæra ákvarðanir Vinnumálstofnunar til ráðuneytisins innan lögbundins kærufrests.

Vegna afgreiðslu Vinnumálastofnunar á umræddri umsókn um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi óskaði stofnunin eftir frekari upplýsingum frá kæranda með bréfi, dags. 22. ágúst 2012, og hafði Vinnumálastofnun borist svar kæranda 11. september sama ár samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Í ljósi þess mátti kærandi að mati ráðuneytisins vænta frekari viðbragða stjórnvalda í tengslum við umrædda umsókn um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi á þeim tíma sem kærandi áætlaði að dvelja í Danmörku samkvæmt gögnum málsins. Jafnframt verður að mati ráðuneytisins almennt að telja að fyrirsvarsmaður félags í rekstri geri ráðstafanir til að halda daglegum rekstri slíks félags gangandi í fjarveru sinni sem og þegar einstaka starfsmenn eru fjarverandi ekki síst þegar fjarveran er fyrirséð, svo sem vegna fæðingarorlofs líkt og í máli því sem hér um ræðir, þannig að meðal annars sé tryggt að fylgst sé með pósti sem félaginu kann að berast sem og að tekið verði við stjórnvaldsákvörðunum er kunna að beinast að félaginu í fjarveru hans eða tiltekinna starfsmanna félagsins. Að mati ráðuneytisins á það ekki síst við í máli þessu þar sem fæðingu sonar kæranda bar að tæplega sex vikum eftir að kærandi fór erlendis þann 7. september 2012 auk þess sem kærandi virðist á þeim tíma ekki hafa átt bókað flug aftur hingað til lands að tilteknum tíma liðnum, sbr. afrit af flugfarseðlum kæranda sem liggja fyrir í máli þessu. Af gögnum málsins má því ráða að kærandi hafi ætlað að dvelja í einhvern tíma í Danmörku í tengslum við fæðingu sonar síns og því jafnframt eðlilegt að mati ráðuneytisins að ætla að hann, sem fyrirsvarsmaður umrædds félags, hafi gert framangreindar ráðstafanir í tengslum við daglegan rekstur félagsins áður en hann fór af landi brott.

Af gögnum málsins verður því ekki annað ráðið að mati ráðuneytisins en að kærandi hefði getað kært umrædda ákvörðun Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins innan lögbundins kærufrests hefði hann talið slíka ráðstöfun þjóna hagsmunum sínum.

Í ljósi framangreinds lítur ráðuneytið svo á að kærandi hafi hvorki sýnt fram á afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti né að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framangreinds er erindi kæranda vísað frá ráðuneytinu, sbr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stjórnsýslukæru Menningarfélagsins Tyrkland-Ísland, dags. 22. nóvember 2012, sem barst ráðuneytinu 27. nóvember sama ár, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 13. september 2012, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […], sem er tyrkneskur ríkisborgari, er vísað frá velferðarráðuneytinu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum